Innlent

Kompás hlaut Blaðamannaverðlaun fyrir viðtal ársins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Verðlaunahafar fyrir viðtal ársins taldir frá vinstri til hægri. Jóhann K. Jóhannsson, Erla Björg Gunnarsdóttir, Arnar Jónmundsson, framleiðandi þáttanna, og Nadine Guðrún Yaghi.
Verðlaunahafar fyrir viðtal ársins taldir frá vinstri til hægri. Jóhann K. Jóhannsson, Erla Björg Gunnarsdóttir, Arnar Jónmundsson, framleiðandi þáttanna, og Nadine Guðrún Yaghi. vísir

Blaðamannaverðlaun fyrir árið 2019 voru afhent í gær og voru verðlaun veitt í fjórum flokkum: fyrir bestu umfjöllunina, viðtal ársins, rannsóknarblaðamennsku og blaðamannaverðlaun ársins. Verðlaunin voru afhent í Blaðamannaklúbbnum í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands.

Verðlaun fyrir bestu umfjöllunina hlutu Alma Mjöll Ólafsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Margrét Marteinsdóttir og Steindór Grétar Jónsson hjá Stundinni fyrir umfjöllun um hamfarahlýnun. Aðrir sem voru tilnefndir í flokknum voru Arnhildur Hálfdánardóttir hjá RÚV fyrir hlaðvarpsþáttaröðina Loftslagsþerapían og Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson fyrir umfjöllun um efnahagsmál hjá Kjarnanum.

Verðlaun fyrir viðtal ársins hlutu Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi og Jóhann K. Jóhannsson hjá Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Verðlaunin hlutu þau fyrir viðtal sitt og umfjöllun um Margréti Lillý Einarsdóttur, 17 ára gamla, sem lýsir því hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti bæði við geðrænan vanda og fíknivanda að stríða. Viðtalið birtist í Kompási.

Aðrir sem tilnefndir voru í þeim flokki voru Orri Páll Ormarsson hjá Morgunblaðinu fyrir viðtal við Sævar Þór Jónsson, lögmann, og Ari Brynjólfsson hjá Fréttablaðinu fyrir viðtal við fjóra erlenda vagnstjóra.

Þeir sem tilnefndir voru til blaðamannaverðlauna.Vísir

Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Stefán Drengsson hlutu verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku fyrir umfjöllun sína í Kveik og hjá Sundinni um Samherjamálið. Aðrir sem tilnefndir voru í þessum flokki voru Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson í Kveik fyrir umfjöllun um Procar-málið og Stefán Einar Stefánsson hjá Morgunblaðinu fyrir bókina „Wow, ris og fall flugfélags“ ásamt fréttum og fréttaskýringum um málið.

Blaðamannaverðlaun ársins hlaut Arnar Páll Hauksson í Speglinum hjá RÚV fyrir umfjöllun um kjaramál. Aðrir sem tilnefndir voru í flokknum voru Guðrún Hálfdánardóttir hjá mbl.is fyrir greinaflokkinn Skóli fyrir alla og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir hjá Stundinni fyrir vönduð viðtöl og umfjallanir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×