Íslenski boltinn

Ásgeir hjá KA næstu þrjú tímabil

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson verður áfram í herbúðum KA næstu árin.
Ásgeir Sigurgeirsson verður áfram í herbúðum KA næstu árin. MYND/KA-SPORT.IS

Ásgeir Sigurgeirsson skrifaði í dag undir nýjan samning við Knattspyrnudeild KA og er hann nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2022.

Ásgeir, sem er 23 ára gamall, kom fyrst til KA fyrir sumarið 2016, að láni frá norska félaginu Stabæk, og átti drjúgan þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeild það ár. Hann skoraði 5 mörk á sinni fyrstu leiktíð í úrvalsdeild og svo 10 mörk í 19 leikjum í Pepsi-deildinni 2018, áður en hann sleit krossband í hné. Í fyrra kom Ásgeir við sögu í 15 deildarleikjum og skoraði eitt mark.

Ásgeir er uppalinn hjá Völsungi og hóf þar meistaraflokksferil sinn en fór frá Húsavík til Stabæk ungur að árum. Hann á að baki 18 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

KA sækir ÍA heim í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar sunnudaginn 14. júní. Leikurinn verður eins og aðrir leikir fyrstu umferðar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×