Erlent

ISIS-liðar handteknir í Þýskalandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir voru handteknir í minnst sex húsleitum í morgun.
Mennirnir voru handteknir í minnst sex húsleitum í morgun. EPA/RONALD WITTEK

Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið hóp manna frá Tadsíkistan sem grunaðir eru um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás þar í landi í nafni Íslamska ríkisins. Fjórir menn voru handteknir í morgun en leiðtogi þeirra, hinn 30 ára gamli Ravsan B., var handtekinn í fyrra eftir að lögregluþjónar fundu ólöglegt vopn í eigu hans.

Samkvæmt frétt Spiegel eru saksóknarar sannfærðir um að mennirnir tilheyri Íslamska ríkinu. Þeir hafi lýst yfir hollustu við samtökin í janúar í fyrr og hafi verið í samskiptum við leiðtoga þeirra í Sýrlandi.

Hinir meintu hryðjuverkamenn eru sagðir hafa ætlað sér í fyrstu að fara til Tadsíkistan og berjast gegn yfirvöldum þar. Þeir hafi þó ákveðið að gera frekar árásir í Þýskalandi. Meðal mögulegra skotmarka voru bandarískir hermenn, stofnanir og samtök og aðilar sem hafa verið gagnrýnir gagnvart íslamstrúnni, í huga hryðjuverkamannanna.

Mennirnir höfðu keypt efni á netinu sem hægt er að nota til að gera sprengjur. Þá höfðu þeir þegar orðið sér út um skotvopn, samkvæmt frétt Welt.

Mennirnir verða færðir fyrir dómara í dag en saksóknarar fara fram á að þeir verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.