Erlent

Shinawatra snýr aftur til Taílands

MYND/AP

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, hyggst snúa aftur til landsins úr útlegð á morgun í kjölfar þess að bandamenn hans sigruðu í þingkosningum skömmu fyrir síðustu áramót.

Shinawatra var á ferðalagi í september 2006 þegar herinn tók völdin í landinu eftir margra mánaða þref í kjölfar kosninga. Shinawatra hafði lýst því yfir að hann myndi snúa aftur eftir sigur bandamanna hans í þingkosningum í vetur, en fyrrverandi flokki Shinawatra var bannað að starfa í landinu. Nú þegar fyrrverandi lögmaður hans er orðinn utanríkisráðherra fær Shinawatra diplómatapassa sinn á ný.

Hins vegar er fastlega búist við því að forsætisráðherrann fyrrverandi verði handtekinn við komuna til Taílands því hans bíða ákærur um spillingu, misnotkun valds og skattsvik í landinu. Óttast er að til átaka geti komið í landinu enda skiptar skoðanir um leiðtogann fyrrverandi sem að undanförnu hefur verið þekktastur fyrir kaup sín á enska kanttspyrnuliðinu Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×