Innlent

Húsið friðlýst sem Alvar Aalto sagði hið fallegasta á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Laxabakki með Sogið í bakgrunni. Myndin er af Facebook-síðu Laxabakka - Fallegasta hús á Íslandi.
Laxabakki með Sogið í bakgrunni. Myndin er af Facebook-síðu Laxabakka - Fallegasta hús á Íslandi.

Bærinn Laxabakki við sunnanvert Sog í Árnessýslu skammt neðan brúarinnar við Þrastalund verður friðlýstur. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur hefur samþykkt tillögu Minjastofnunar Íslands þess efnis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Húsið átti og reisti Ósvaldur Knudsen (1899-1975) málarameistari og brautryðjandi í gerð leikinna kvikmynda og heimildamynda um íslenska náttúru. Var það var byggt sem veiði- og frístundahús en Ósvaldur hannaði og smíðaði húsið í mynd íslensks torfbæjar með tveimur misháum burstum, torfi á þaki og hlöðnum hliðarveggjum úr hraunhellum. 

Við árbakkann skammt frá húsinu eru leifar bátaskýlis með torfþekju sem nú er fallin.

Að neðan má sjá myndina Sogið sem Ósvaldur gerði á sínum tíma.

„Ég fagna því að þetta fallega og sögufræga hús fái þá viðurkenningu sem því ber. Húsið hefur mikla sérstöðu en fá torfhús með burstalagi eru enn uppistandandi á suðvesturhorni landsins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Laxabakki er sambland af torfbæ og timburhúsi sem stendur föstum fótum í innlendri byggingarhefð en sker sig jafnframt úr sem sjálfstætt verk með sterk höfundareinkenni. Baðstofa hússins er rétt smíðuð samkvæmt aldagamalli hefð. Færa má fyrir því rök að húsið sé seinasti hlekkurinn í óslitinni, ellefu hundruð ára þróunarsögu íslenska bæjarins.

Finnski arkitektinn Alvar Aalto sótti Laxabakka heim árið 1968 og er til ljósmynd af honum við húsið ásamt Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt. Haft var eftir Aalto að Laxabakki væri að hans mati fegursta bygging á Íslandi.

Í friðlýsingartillögu Minjastofnunar Íslands kemur fram að varðveislugildi Laxabakka sé mikið þrátt fyrir bágborið ástand hússins, og felst það gildi þess ekki síst í samspili byggingarlistar við náttúru og umhverfi.

Minjastofnun Íslands mun þinglýsa friðlýsingunni og tilkynna hlutaðeigandi aðilum um hana samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar.

Sérstök Facebook-síða er til fyrir Laxabakka þar sem meðal annars má sjá myndir frá uppbyggingu hússins síðastliðið sumar. Með því að smella á myndirnar að ofan má sjá Instagram reikning sama verkefnis með nýlegri myndum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.