Innlent

Stríðið í Flóa: Segir lóðaskjöl týnd en dóttir deiluaðila starfar hjá sýslumanni

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir sem nú stríða í Flóa. Brigslyrðin ganga á vixl og nú er búið að draga sýslumanninn á Selfossi inní deiluna.
Þeir sem nú stríða í Flóa. Brigslyrðin ganga á vixl og nú er búið að draga sýslumanninn á Selfossi inní deiluna.

Óvenju illskeyttar nágrannaerjur, sem jafnvel má flokka sem stríð, geysa nú í Flóa milli ábúenda í Langholti 1 og 2. Þær snúast um lóðamörk og ganga ásakanir á víxl, meðal annars þess efnis að annar deiluaðili hafi reynt að aka yfir hinn á skurðgröfu. Lögreglan hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af málinu.



Fréttastofa hefur fjallað um málið og í fréttum Stöðvar 2 í gær var meðal annars rætt við Hreggvið Hallgrímsson Langholti 1, sem á sínum tíma skipti á Langholti 1 og 2 á sléttu, að sögn. Brigslyrðin ganga á víxl því Hallgrímur heldur því jafnframt fram að lóðaskjöl séu týnd hjá sýslumanni, en á skrifstofu sýslumanns starfi einmitt dóttir konunnar á Langholti 2, þeirrar sem Hreggviður nú deilir við. Hún hefur kært hann þrisvar fyrir manndrápstilraunir, að sögn Hreggviðs; kærur sem ríkissaksóknari hefur fellt niður jafnharðan. Og það var þá sem Gunnar Örn Jónsson settur sýslumaðurinn á Selfossi stökk uppúr sófasæti sínu í gærkvöldi og vill nú koma á framfæri eftirfarandi athugasemd:



„Vegna fréttar í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi um deilur milli ábúenda í Langholti 1 og 2 í Flóahreppi í Árnessýslu þykir embætti Sýslumannsins á Selfossi rétt að koma eftirfarandi á framfæri:



Ávirðingum um að skjöl í þinglýsingadeild hafi glatast er alfarið vísað á bug.  Embættið starfar að lögum og þess er vandlega gætt að hæfisskilyrðum þeirra er koma að máli sé fullnægt.  Deiluaðilum hafa verið kynntar þær lögformlegu leiðir sem til eru, annarsvegar til að fá sett lögbann á framkvæmdir sem þeir telja ólögmætar og hinsvegar til að fá skorið úr um mörk landareigna fyrir dómstólum, en hafa að því er virðist kosið að nýta sér ekki þær leiðir.



Embættið mun ekki tjá sig frekar um málið en áskilur sér þó rétt til þess að upplýsa um augljósar rangfærslur um málsmeðferð.“



Og undir þetta ritar sýslumaðurinn á Selfossi. Þarna er greinilega allt undir og ekki sér fyrir endann á þessari harðvítugu deilu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×