Erlent

Saka ISIS um fjöldamorðið á fæðingardeildinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst þrír vígamenn réðust á fæðingardeildina.
Minnst þrír vígamenn réðust á fæðingardeildina. AP/Rahmat Gul

Yfirvöld Bandaríkjanna segja vígamenn Íslamska ríkisins hafa gert árás á fæðingardeild í Kabúl í Afganistan í vikunni. Minnst 22 mæður og ljósmæður voru myrtar og tvö ungbörn. Hingað til hafa spjótin beinst að Talibönum en Bandaríkin hafa ýtt undir friðarviðræður á milli ríkisstjórnarinnar og Talibana.

Ashraf Ghani, forseti, og ríkisstjórn hans hefur þó gagnrýnt Talibana fyrir að halda árásum sínum til þreytu, þrátt fyrir viðræðurnar og eftir fjöldamorðið á fæðingardeildinni skipaði hann hernum að sækja fram gegn Talibönum.

Bandaríkjamenn lýstu því þó yfir í gærkvöldi að ISIS hefði gert árásina og hvatti Ghani til að halda viðræðunum áfram við Talibana. Zalmay Khalilzad, sérstakur erindreki Bandaríkjanna gagnvart Afganistan, sagði í gær að markmið ISIS-liða væri að stöðva viðræðurnar og koma af stað borgarastyrjöld í landinu.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgðinni á árásinni en ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á sjálfsmorðsárás á jarðarför í Nagnarhar þar sem minnst 32.

Bandaríkin gerðu friðarsamkomulag við Talibana þann 29. febrúar. Það samkomulag felur í sér brottflutning bandarískra hermanna frá Afganistan og að bæði Talibanar og ríkisstjórn Ghani áttu að sleppa föngum úr haldi. Bandaríkin hafa þrýst á Ghani að hefja einnig viðræður við Talibana.

Afganar eru þó ekki sáttir við að hafa ekki fengið að koma að viðræðum Bandaríkjanna og Talibana og segja það hafa grafið verulega undan mögulegri samningsstöðu þeirra.

Þá segja þeir Talibana skapa ástand þar sem hryðjuverkahópar þrífast og saka þá um að vinna með öðrum vígahópum.


Tengdar fréttir

Íbúar Kabúl í losti eftir árás á fæðingardeild

Íbúar afgönsku höfuðborgarinnar Kabúl eru harmi slegnir eftir að vígamenn réðust á fæðingardeild sjúkrahúss í gær. Að minnsta kosti tuttugu og fjögur fórust, þar af tvö nýfædd börn.

Drápu ungbörn og mæður í árás á sjúkrahús í Kabúl

Tvö ungbörn og ellefu mæður og ljósmæður eru látnar eftir að vígamenn réðust á fæðingardeild sjúkrahúss í Kabúl, höfuðborg Afganistans í dag. Árásarmennirnir eru sagðir hafa verið dulbúnir sem lögreglumenn en þeir voru allir skotnir til bana í klukkustundalöngum skotbardaga í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×