Eftir fimm leiki í röð án sigurs í úrvalsdeildinni í Katar fögnuðu Aron Einar Gunnarsson og Heimir Hallgrímsson sigri í kvöld þegar liðið hafði betur gegn Al Khor á heimavelli, 1-0.
Al Arabi hafði gert þrjú jafntefli í röð og tapað tveimur leikjum þar á undan, en síðasti sigur liðsins í deildinni kom 2. janúar. Í millitíðinni hefur liðið hins vegar unnið í sitt hvorri bikarkeppninni. Eftir frábæra byrjun á tímabilinu hefur Al Arabi aðeins unnið tvo af síðustu tólf deildarleikjum sínum.
نهاية المباراة
— Al-Arabi Sports Club (@alarabi_club) March 6, 2020
#العربي 1 - 0 #الخور
الاسبوع 17 | #دوري_نجوم_QNBpic.twitter.com/SKqOtmkNCq
Aron Einar spilaði allan leikinn í kvöld en sigurmarkið skoraði Túnisbúinn Hamdi Harbaoui á 21. mínútu. Aron fékk gult spjald á 77. mínútu.
Al Arabi komst með sigrinum upp í 5. sæti deildarinnar, sem telur tólf lið, en Al Khor er í 10. sæti. Al Arabi er með 24 stig, fjórum stigum á eftir næsta liði, Al Gharafa. Það er einmitt næsti andstæðingur Arons og félaga, miðvikudaginn 18. mars. Í millitíðinni spilar liðið í 8-liða úrslitum Emír-bikarsins næsta miðvikudag.