Fótbolti

Forseti FIFA leggur áherslu á að fótboltasamfélagið fari sér hægt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Infantino tók við sem forseti FIFA af hinum mjög svo umdeilda Sepp Blatter.
Infantino tók við sem forseti FIFA af hinum mjög svo umdeilda Sepp Blatter. vísir/getty

Gianni Infantino, forseti alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA, sendi út sérstakt ávarp til 211 aðildarfélaga sambandsins í gær vegna viðbragða fótboltasamfélagsins við kórónaveirufaraldrinum.

Þar ítrekaði Infantino tilmæli FIFA um að öllu yrði farið með ítrustu gát áður en farið yrði að spila fótbolta að nýju en nær öllum deildum heims hefur verið frestað um óákveðinn tíma auk þess sem stórum fótboltaviðburðum á borð við EM 2020 og Copa America hefur verið frestað um eitt ár.

„Það er í algjörum forgangi hjá okkur og meginregla í öllum okkar keppnum og tilmælum okkar til fótboltasamfélagsins að heilsan er í fyrsta sæti. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta,“ sagði meðal annars í ávarpi Infantino.

Stærstu deildir Evrópu eru enn ókláraðar en í deildum á borð við ensku úrvalsdeildina eru miklir fjármunir í húfi.

„Enginn leikur, engin keppni og engin deild er þess virði að hætta einu mannslífi. Allir í þessum heimi ættu að gera sér grein fyrir því. Það væri stórkostlega óábyrgt að þröngva einhverjum deildarkeppnum af stað ef það er ekki 100% öruggt ástand. Ef við þurfum að bíða örlítið lengur verðum við að gera það. Það er betra að bíða of lengi en að taka einhverja áhættu,“ segir Infantino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×