Erlent

Trump og Pútin vilja hækka olíuverð

Þórir Guðmundsson skrifar
Sólin sest á bak við olíudælu í Karnesborg í Texas í Bandaríkjunum.
Sólin sest á bak við olíudælu í Karnesborg í Texas í Bandaríkjunum. Eric Gay/AP

Forsetar Rússlands og Bandaríkjanna ræddu í dag leiðir til að hækka heimsmarkaðsverð á olíu. Verð á hráolíu hefur lækkað úr tæplega 70 dollurum á tunnu í janúar í rúmlega 30 dollara nú og það lækkaði aftur á mörkuðum í morgun.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddust við í síma. Í tilkynningu frá Moskvu segir að forsetarnir hafi rætt leiðir til að koma á stöðugleika í olíuverði, meðal annars í tengslum við viðræður á vettvangi OPEC olíuframleiðsluríkja um að minnka framleiðsluna. 

Stór hluti gjaldeyristekna Rússa er af olíusölu og Bandaríkin hafa einnig hagsmuni af hærra verði sökum mikillar framleiðsluaukningar þar á olíu undanfarin ár. Þetta er í annað sinn á tveimur dögum sem forsetarnir ræðast við. Í tilkynningu Rússlandsstjórnar segir að Trump hafi með Putin farið yfir samtöl sín við leiðtoga OPEC ríkja undanfarna daga. 

Verðlækkanir síðustu vikur hafa verið vegna samdráttar í eftirspurn, sem hefur fallið um 30 prósent eftir að kórónuveirufaraldurinn blossaði upp. Aðgerðir ríkja gegn sjúkdómnum hafa orðið til þess að stöðva farþegaflug víða um heim, draga úr umferð og takmarka efnahagsleg umsvif.

Sérfræðingar um olíumarkaðinn segja að aðgerðir á vettvangi OPEC séu ólíklegar til að koma í veg fyrir að olíuverð haldi áfram að lækka. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×