Erlent

Kaupa andlitsgrímur fyrir milljarð dala

Andri Eysteinsson skrifar
Gavin Newsom ríkisstjóri Kaliforníu.
Gavin Newsom ríkisstjóri Kaliforníu. Vísir/AP

Yfirvöld í Kaliforníu hafa greint frá áformum sínum sem felast í því að verja nærri milljarði dala á mánuði til þess að kaupa um 200 milljón andlitsgrímur. Áformin eru liður í að tryggja birgðarstöðu hlífðarbúnaðar ríkisins vegna faraldursins. AP greinir frá.

Ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, greindi frá áformunum í viðtali á MSNBC á dögunum en í gær létust 68 af völdum veirunnar í ríkinu.

Stjórnendur í Kalíforníu hafa skrifað undir samning við bandaríkjadeild kínverska flutningafyrirtækisins BYD til þess að sjá um flutning grímanna sem eru framleiddar í Kína.

Keyptar verða 150 milljón gríma af gerðinni N95 sem ætlað er að veita vernd gegn öreindum í lofti þá verða keyptar 50 milljón grímur af annari gerð sem ætlað er að veita vernd gegn dropasmiti.

Hlífðarbúnaður hefur verið af skornum skammti eftir að faraldurinn kom upp, má rekja skortinn til þess að faraldurinn kom fyrst upp í Kína og setti því skorður í framleiðslu og dreifingu.

Greiddar verða 495 milljónir dala fyrir vörurnar í fyrstu greiðslu en heildarkostnaður er áætlaður 990 milljónir dala og verða eftirstöðvarnar greiddar við viðtöku. Kalifornía hefur þegar keypt hlífðarbúnað fyrir 1,4 milljarða dala og dreift tugum milljóna af andlitsgrímum.

Newsom sagði í viðtali á MSNBC að mikilvægt væri að þurfa ekki að treysta á alríkisstjórnina. „Aðgerðirnar eru ekki gagnrýni á störf ríkisstjórnarinnar. Staðreyndin er að á landsvísu eru grímurnar ekki til,“ sagði Newsom.

Yfir 18.800 manns hafa greinst með Covid-19 sjúkdóminn í Kaliforníu og yfir 490 hafa látist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.