Innlent

Grínaðist með kórónuveirusmit við afskipti lögreglu

Andri Eysteinsson skrifar
Tveir menn sögðust smitaðir af kórónuveirunni þegar lögregla hafði afskipti af þeim.
Tveir menn sögðust smitaðir af kórónuveirunni þegar lögregla hafði afskipti af þeim. Vísir/Vilhelm

Kórónuveiran er ofarlega í huga margra þessa dagana. Þar á meðal eru tveir menn sem lögregla þurfti að hafa afskipti af undanfarna nótt. Skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um ofurölvi mann.

Maðurinn gat hvorki gert grein fyrir sér né heimilisfangi sínu. Hinn ölvaði greindi lögreglumönnum þá frá því að hann væri smitaður af kórónuveirunni en viðurkenndi seinna að um grín væri að ræða.

Þá var maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur klukkan hálf tvö í nótt. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll og brot á lögreglusamþykkt og á vopnalögum. Maðurinn greindi lögreglumönnum einnig frá því að hann væri haldinn Covid-19 sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur en sýndi engin merki um smit. Báðir mennirnir voru vistaðir í fangageymslum lögreglu.

Þá var bifreið stöðvuð í Kópavogi á þriðja tímanum í nótt, ökumaður og farþegi, sem báðir voru 17 ára, eru báðir grunaðir um brot. Ökumaðurinn um akstur undir áhrifum fíkniefna og er farþeginn grunaður um vörslu.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.