Fótbolti

Þrjú félög úr ensku úrvalsdeildinni með Andra í sigtinu

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Fannar Baldursson í rauðum og svörtum búningi Bologna í leiknum við Udinese í vetur.
Andri Fannar Baldursson í rauðum og svörtum búningi Bologna í leiknum við Udinese í vetur. vísir/getty

Knattspyrnumaðurinn ungi Andri Fannar Baldursson er afar eftirsóttur eftir að hafa stigið sín fyrstu skref með aðalliði Bologna á Ítalíu í vetur.

La Gazzetta dello Sport segir í dag að hvorki fleiri né færri en fimm félög úr efstu deild Ítalíu og þrjú ensk úrvalsdeildarfélög hafi spurst fyrir um Andra Fannar nú á meðan að hlé er í fótboltanum vegna kórónuveirufaraldursins.

Samkvæmt sömu frétt hefur Bologna hins vegar í huga að halda Andra Fannari og framlengja samning við hann til ársins 2024. Félagið hafi þá stefnu að vilja leyfa leikmönnum að þroskast og dafna í stað þess að þeir fari á brott ungir að árum.

Andri, sem er uppalinn Bliki, er mættur aftur til Bologna eftir að hafa fengið að fara til Íslands vegna faraldursins. Vonir standa til þess að keppni á Ítalíu geti hafist að nýju 13. júní.

Andri er aðeins 18 ára en fékk sitt fyrsta tækifæri í aðalliði Bologna í ítölsku A-deildinni í febrúar þegar hann lék rúman hálftíma í 1-1 jafntefli við Udinese þar sem jöfnunarmark Bologna kom í lok leiks. Bologna er í 10. sæti af 20 liðum í deildinni.


Tengdar fréttir

Ítalir ætla að byrja aftur 13. júní

Keppni í ítölsku úrvalsdeildinni á að hefjast á ný 13. júní, rúmum þremur mánuðum eftir að keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.

Andri Fannar: Er hungraður í meira

Hinn ungi og efnilegi Andri Fannar Baldursson, leikmaður Bologna í ítölsku úrvalsdeildinni, var í sjónvarpsviðtali á sjónvarpsstöð félagsins í dag en hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið á dögunum. Viðtalið má finna í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×