Fótbolti

Levy í­hugar að láta vallar­starfs­menn Totten­ham vinna í garðinum heima hjá sér

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daniel Levy hefur tekið margar umdeildar ákvarðanir hjá Tottenham en hann segir að kórónuveiran sé það erfiðasta sem hefur komið í hans tuttugu ára tíð hjá félaginu.

Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, íhugar nú að láta vallarstarfsmenn félagsins, sem ekki eru kominn á neyðarrlög stjórnvalda, vinna í garðinum hjá sér í Hertfordshire á Suðaustur-Englandi.

Tottenham tekur hins vegar fram að Levy muni borga starfsfólkinu úr eigin vasa og mun ekki nota laun Tottenham til þess að greiða þeim fyrir verkefnið en Tottenham er að reyna halda fólki sínu í vinnu.

Þar sem lítið er að gera á Tottenham-leikvanginum sem og æfingasvæði félagsins, Enfield, íhugar stjórnarformaðurinn að nýta hluta af þeim starfsmönnum til að gera garðinn sinn fínan.

Það hefur verið mikill hiti í kringum Levy undanfarna daga eftir að hann nýtti sér neyðarúrræði stjórnvalda fyrir tæplega helming af þeim 550 starfsmönnum sem starfa innan félagsins. Því hafa þeir farið niður 20% í launum á meðan leikmenn félagsins eru á fullum launum sem og Levy sjálfur.

Tottenham er áttunda ríkasta félag í heimi og hefur skilað hagnaði á hverju ári frá því árið 2012, síðast 69 milljónum punda á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×