Innlent

Sjö starfsmenn Alþingis smitaðir af kórónuveirunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Alþingi hefur gripið til ráðstafanna vegna faraldurs kórónuveirunnar. 
Alþingi hefur gripið til ráðstafanna vegna faraldurs kórónuveirunnar.  Vísir/vilhelm

Viðbragðsteymi Alþingis greindi frá því í dag að einn starfsmaður til viðbótar hefði um helgina bæst í hóp þeirra sem greinst hafa með kórónuveiruna. Starfsmennirnir eru nú orðnir sjö talsins. 

Nýgreindi starfsmaðurinn hefur starfsstöð í Blöndahlshúsi en hefur verið í sóttkví síðastliðnar tvær vikur, segir í tilkynningu á vef Alþingis. 

Fjögur þeirra sem áður veiktust af veirunni hafa náð bata og vonir standa til að hin losni úr einangrun á næstu dögum. Einn starfsmaður er í sóttkví til 8. apríl eftir samskipti við einstakling utan skrifstofunnar en hann er ekki veikur.

Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að óbreyttu fyrirkomulagi verði haldið á skrifstofu Alþingis enn um sinn og starfsfólk vinni heima eins og mögulegt er. Þeir sem nauðsynlega þurfa að vera á skrifstofunni eru hvattir til að gæta að sóttvörnum.

Í mars var greint frá því að starfsáætlun Alþingis hafi í fyrsta sinn verið tekin úr sambandi til að þingið geti hugað að aðgerðum vegna kórónuveirunnar. Er þingstörfum nú hagað þannig að sem fæstir þingmenn séu í þingsölum hverju sinni og atkvæðagreiðslur fara nú fram með öðrum hætti en áður.

Starfsáætlun þingsins er úr sambandi allt fram til 20. apríl þegar þing á að koma saman aftur að loknu páskahléi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×