Innlent

Krefjast þess að Borgarleikhúsið greiði laun tafarlaust

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR. Vísir/vilhelm

Stjórn VR krefst þess að Borgarleikhúsið greiði starfsmönnum sínum í undir 45% starfshlutfalli tafarlaust umsamin laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar VR sem birt var á vef félagsins í dag.

Í ályktuninni er fullyrt að Borgarleikhúsið hafi ekki greitt þeim starfsmönnum leikhússins sem eru í minna en 45% starfshlutfalli laun fyrir aprílmánuð.

„Borgarleikhúsið hefur enga sérstöðu umfram önnur fyrirtæki sem nýta sér úrræði stjórnvalda nú þegar gefur á bátinn. Þótt draga þurfi saman seglin víða þá standa fyrirtæki við ákvæði kjarasamninga um uppsagnarfrest. Fyrirtæki verða enda að gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi til að takast á við óvæntar aðstæður. Slíkt getur ekki talist of íþyngjandi fyrir Borgarleikhúsið þegar kemur að greiðslu launa til starfsmanna sem eru í minna en 45% starfshlutfalli.

Stjórn VR krefst að tafarlaust verði starfsmönnum Borgarleikhússins sem eru í minna 45% starfshlutfalli greidd umsamin laun,“ segir í ályktuninni.

Ekki hefur náðst í Brynhildi Guðjónsdóttur Borgarleikhússtjóra vegna málsins í dag.

Starfsemi Borgarleikhússins hefur verið í algjöru lágmarki nú á meðan samkomubann vegna faraldurs kórónuveiru er í gildi en öllum sýningum leikhússins hefur verið frestað fram á haust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×