Erlent

Flugu tilraunaþotu til Kína til að sækja andlitsgrímur

Kristján Már Unnarsson skrifar
A350-1000 tilraunaþota Airbus affermd í Toulouse í dag eftir komuna frá Kína. Farmurinn var fjórar milljónir af andlitsgrímum.
A350-1000 tilraunaþota Airbus affermd í Toulouse í dag eftir komuna frá Kína. Farmurinn var fjórar milljónir af andlitsgrímum. Mynd/Airbus.

Þota frá evrópsku Airbus-flugvélasamsteypunni lenti í Toulouse í Frakklandi í dag með fjórar milljónir andlitsgríma til að nota í baráttunni gegn Covid 19-faraldrinum. Þeim verður síðan dreift áfram til Frakklands, Þýskalands, Bretlands og Spánar.

Flugið er liður í því verkefni Airbus að kaupa hjálparvörur í Kína og gefa þær svo áfram til stjórnvalda í heimalöndum Airbus í Evrópu. Þetta er þriðja flug fyrirtækisins í þessu skyni frá því í mars. Þotan lagði upp frá Frakklandi á föstudag og lenti í borginni Tianjin í Kína í gær þar sem andlitsgrímurnar voru settur um borð.

Tilraunaþotan á flugvellinum í Tianjin í Kína þar sem verið er að setja farminn um borð.Mynd/Airbus.

Það sem er óvenjulegt við þessa síðustu ferð er að tilraunaflugmenn Airbus flugu tilraunaþotu af gerðinni Airbus A350-1000 til að sækja farminn til Kína, eintak sem til þessa hefur eingöngu verið notað í reynsluflugi. A350-1000 er ein nýjasta breiðþota Airbus og var fyrst tekin í notkun fyrir tveimur árum.

Airbus hefur einnig brugðist við faraldrinum með því nýta tækniþekkingu sína og starfsfólk í ný verkefni tengd heimsfaraldrinum, svo sem við hönnun og framleiðslu á öndunarvélum og með því að þrívíddarprenta sérstaka andlitshjálma, sem eru mikilvægir fyrir starfsfólk sjúkrahúsa.

Starfsmenn Airbus eru farnir að framleiða andlitshjálma fyrir starfsfólk sjúkrahúsa til að verjast smiti.Mynd/Airbus.

Til að flytja vörurnar innan Evrópu hefur Airbus notað eigin flugmenn og flugvélar, þar á meðal eina af hinum stórfurðulegu Beluga-vélum, sem fyrirtækið smíðaði sérstaklega til að flytja vængi og skrokkhluta vegna eigin flugvélasmíði.

Beluga-vél, sem venjulega flytur flugvélaskrokka innan Evrópu, er farin að ferja hjálpartæki gegn heimsfaraldrinum.Mynd/Airbus.

Ennfremur herflutningavél af gerðinni A400M, en hermenn og herbílar hafa svo flutt vörurnar síðasta áfangann til sjúkrastofnana og stjórnsýslumiðstöðva, eins og sjá má hér á þessu myndbandi frá Airbus:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×