Erlent

Lokuðu þinginu og völdu eigin forseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Guaidó reyndi að brjóta sér leið í gegnum röð hermanna og inn í þinghúsið en án árangurs.
Guaidó reyndi að brjóta sér leið í gegnum röð hermanna og inn í þinghúsið en án árangurs. AP/Matias Delacroix

Stjórnarher Venesúela meinaði stjórnarandstæðingum um aðgang að þinghúsinu á meðan ríkisstjórnin valdi nýjan þingforseta í gær. Erlend ríki fordæma aðfarir ríkisstjórnar sósíalista og segja þær árás á lýðræðið í landinu.

Búist var við því að Juan Guaidó, sem lýsti sig réttmætan forseta Venesúela í fyrra, yrði endurkjörinn forseti þingsins þar sem stjórnarandstaðan er með meirihluta. Hermenn með óeirðarskildi komu hins vegar í veg fyrir að hann gæti farið inn í þinghúsið. Stjórnarþingmenn Sósíalistaflokks Nicolás Maduro forseta notuðu tækifærið og kusu Luis Parra sem þingforseta. Parra var nýlega rekinn úr stjórnarandstöðuflokki vegna ásakana um spillingu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Aðrir stjórnarandstöðuleiðtogar fordæmdu atkvæðagreiðsluna sem þeir sögðu ólögmæta. Ekki hefði verið boðað til hennar og atkvæði hefðu ekki verið talin eins og þingsköp gerðu ráð fyrir.

Síðar greiddu þingmenn stjórnarandstöðunnar Guaidó atkvæði sín sem þingforseta á neyðarfundi sem þeir héldu á skrifstofu dagblaðs stjórnarandstöðunnar. Þeir segja að hundrað þingmenn af 167 hafi greitt Guaidó atkvæði sitt.

Fulltrúar Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og fjölda ríkja Rómönsku Ameríku fordæmdu gjörðir ríkisstjórnar Maduro. Evrópusambandið segist ætla að viðurkenna Guaidó áfram sem forseta þingsins og landsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.