Erlent

Rússland við það að taka fram úr Spáni í fjölda smitaðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá sérstöku Covid-19 sjúkrahúsi sem reist var í Moskvu.
Frá sérstöku Covid-19 sjúkrahúsi sem reist var í Moskvu. EPA/SERGEI CHIRIKOV

Smituðum hefur fjölgað um 11.656 á milli daga í Rússlandi og í heildina hafa 221.344 greinst með Covid-19. Með því færist Rússland í þriðja sæti ríkja þar sem flest smit hafa greinst. Á Spáni hafa minnst 224.350 smitast, svo vitað sé, og í Bandaríkjunum hafa minnst 1.329.799 smittast.

Útlit er þó fyrir að Rússar taki fram úr Spánverjum, miðað við það að fjölgun smita í Rússlandi er hærri en þar. Hún er í raun hvergi hærri nema í Bandaríkjunum, samkvæmt Moscow Times.

Smituðum hefur fjölgað um meira en tíu þúsund á dag í rúma viku núna. Að miklu leyti má rekja það til mikillar aukningar í skimun í Rússlandi.

Samkvæmt opinberum tölum hefur 39.801 jafnað sig af veirunni í Rússlandi og 2.009 hafa dáið. Það er tiltölulega lág tala, miðað við ríki þar sem sambærilegur fjöldi smita hafa greinst eins og á Spáni, þar sem 26.621 hefur dáið, og á Bretlandi, þar sem 31.930 hafa dáið, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum.

TASS fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir langflesta þeirra sem dóu á milli daga vera frá Moskvu. Sömu sögu sé að segja af fjölda smitaðra. Til að mynda greindust 6.169 af nýju smitunum 1.656 í borginni.

Rússar héldu upp á sigur í seinni heimsstyrjöldinni um helgina en minnst 376 nemendur herskóla sem áttu að taka þátt í hátíðarhöldunum hafa greinst með Covid-19. Svo virðist sem að þeir hafi smitast á æfingum fyrir skrúðgöngu sem átti að fara fram en var felld niður vegna faraldursins. Moscow Times vitnar í rannsóknarmiðilinn Proekt (á rússnesku) en blaðamenn þess miðils uppgötvuðu útbreiðslu veirunnar á meðal nemendanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×