Erlent

Þrjár nýjar reikistjörnur fundnar sem gætu verið lífvænlegar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Stærðarhlutföll þekktra reikistjarna í lífbeltum sinna sólkerfa.
Stærðarhlutföll þekktra reikistjarna í lífbeltum sinna sólkerfa. Mynd: NASA Ames/JPL-Caltech/Stjörnufræðivefurinn
Keplerssjónauki NASA hefur fundið þrjár reikistjörnur í tveimur sólkerfum sem gætu verið lífvænlegar. Nefnast þær Kepler-62e, Kepler-62f og Kepler-69c.

Reikistjörnurnar, sem eru á stærð við jörðina, eru allar í lífbeltum sinna stjarna, en það er það svæði í sólkerfi þar sem hitastig er hæfilegt til þess að vatn geti verið í fljótandi formi.

Móðurstjarna Kepler-62e og Kepler-62f heitir Kepler-62 og er sögð dæmigerð stjarna í Vetrarbrautinni okkar. Hún er í stjörnumerkinu Hörpunni, nokkuð minni og kaldari en sólin okkar, og á braut um hana eru að minnsta kosti fimm reikistjörnur.

Móðurstjarna Kepler-69c er Kepler-69, sem er einnig minni en sólin okkar og í stjörnumerkinu Svaninum.

Hvort reikistjörnurnar séu lífvænlegar er háð ýmsum þáttum, svo sem massa þeirra, efnasamsetningu og gerð lofthjúpanna.

Nánar má lesa um þessar nýfundnu reikistjörnur á Stjörnufræðivefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×