Erlent

Vara við annarri bylgju eftir hópsmit sem tengt er við einn mann

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kirkjugestir í Suður-Kóreu.
Kirkjugestir í Suður-Kóreu. Ap/Ahn Young-joon

Moon-Jae in, forseti Suður-Kóreu, hefur varað við að önnur bylgja kórónuveirunnar gæti skollið á fari yfirvöld og landsmenn ekki varlega. Veitingastöðum og börum hefur verið lokað í Seúl á ný eftir að 34 ný tilfelli greindust í gær.

Suður-Kórea hefur verið sett í flokk með Íslandi yfir lönd sem talin eru hafa gripið til árangursríkra aðgerða til að stemma í stigu við kórónuveirufaraldurinn. Smitum hefur farið fækkandi í Suður-Kórea þangað til í gær, þegar 34 ný smit voru tilkynnt.

Smitin eru allmörg rakin til næturlífsins í Seúl og talið er að rekja megi minnst 15 af 34 smitum til 29 ára gamals manns sem fór að skemmta sér í skemmtanahverfi Seúl um síðustu helgi.

Heilbrigðisyfirvöld reyna nú hvað þau geta til að finna og prófa 1,510 einstaklinga sem voru úti á lífinu og talin hafa komist í tæri við smitaða einstaklinga. Í vikunni var slakað á aðgerðum vegna veirunnar en um helgina ákvað borgarstjóri Seúl-borgar að loka veitingastöðum- og börum á ný, til að minnka líkurnar á svokallaðri annari bylgju faraldursins.

Forseti Suður-Kóreu sagði í gær að hin nýju smit væru áminning um að jafnvel þótt faraldurinn væri á niðurleið gætu alltaf komið upp hópsmit. Þannig þyrftu allir að vera á tánum þangað til að endanlega væri búið að ná tökum á faraldrinum.

„Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið,“ sagði Moon-Jae in.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×