Erlent

Háskóli fær metsekt vegna kynferðisbrota fimleikalæknisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Larry Nassar braut á hundruð kvenna, meðal annars í starfi sínu fyrir Ríkisháskólann í Michigan.
Larry Nassar braut á hundruð kvenna, meðal annars í starfi sínu fyrir Ríkisháskólann í Michigan. Vísir/EPA
Menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna sektaði Ríkisháskóla Michigan um 4,5 milljónir dollara, jafnvirði rúms hálfs milljarðs íslenskra króna, fyrir að hafa brugðist nemendum þar sem urðu fyrir kynferðisofbeldi af hálfu Larry Nassar, fyrrverandi læknis fimleikalandsliðs Bandaríkjanna. Sektin er sú hæsta sinnar tegundar.

Nassar starfaði sem íþróttalæknir við háskólann. Hann hefur verið sakaður um að hafa beitt fleiri en 350 konur kynferðislegu ofbeldi og var dæmdur í 300 ára fangelsi samtals fyrir að hafa misnotað ungar fimleikakonur, margar þeirra í gegnum störf hans fyrir háskólann í Michigan.

Reuters-fréttastofan segir að ráðuneytið hafi talið að ríkisháskólinn hafi ekki brugðist nægilega við kvörtunum undan Nassar. Þannig hafi skólinn látið nemendur búa við kynferðislega hættulegt umhverfi sem takmarkaði aðgang þeirra og getu til að nýta sér menntun sína.

Kvartað hafði verið undan Nassar allt frá 10. áratugnum en skólinn lét ekki rannsaka ásakanirnar fyrr en árið 2014. Fyrrverandi yfirmaður Nassar, deildarforsetinn Strampel, var einnig handtekinn í mars í fyrra og ákærður fyrir kynferðisbrot. Hann var dæmdur í ársfangelsi fyrir að vanrækja skyldur sínar og misferli í starfi.

Samhliða sektinni féllst háskólinn á að gera breytingar á verklagi sínu og mögulega reka starfsmenn sem gripu ekki til aðgerða þrátt fyrir kvartanir á hendur Nassar og Strampel.


Tengdar fréttir

Fyrrum forseti fimleikasambandsins handtekinn

Vandræðaganginum í kringum bandaríska fimleikasambandið er ekki lokið og nú síðast var fyrrum forseti sambandsins handtekinn fyrir að leyna sönnunargögnum í málinu gegn Larry Nassar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×