Sport

Hunsuðu viðvaranir og leyfðu Nassar að misnota fimleikastúlkurnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Larry Nassar mun deyja í fangelsi fyrir glæpi sína.
Larry Nassar mun deyja í fangelsi fyrir glæpi sína. vísir/getty
Bandaríska Ólympíunefndin hefur beðist opinberlega afsökunar eftir að skýrsla leiddi í ljós að fimleikasambandið náði ekki að verja íþróttamenn sína frá því að vera kynsferðislega misnotaðir af lækninum Larry Nassar.

Nassar, sem var læknir Michigan State-háskólaliðsins og bandaríska landsliðsins, var fyrr á árinu dæmdur í ríflega 300 ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega á að minnsta kosti 265 stúlkum yfir margra ára skeið.

„Þrátt fyrir að Nassar beri að sjálfsögðu ábyrgð á þessu áratuga langa ofbeldi gegn þessum stúlkum og konum þá framdi hann ekki ódæðisverkin í lokuðu umhverfi. Þvert á móti starfaði hann í umhverfi sem auðveldaði honum að fremja glæpina,“ segir í skýrslunni. BBC greinir frá.

Skýrslan var gerð af sjálfstæðum rannsóknaraðilum en hún er 233 síðna löng. Í henni eru viðtöl við ríflega 100 manns og farið er yfir meira en 1,3 milljónir skjala.

Margar af þeim sem Nassar braut á voru mættar í dómsal þegar dómur var kveðinn upp.vísir/getty
„Fjöldinn allur af stofnunum og einstaklingum ýttu hálfpartinn undir ofbeldið og náðu ekki að stöðva hann. Þar á meðal voru þjálfarar hjá einstaka félögum og í afrekshópum, sjúkraþjálfarar, læknar og yfirmenn hjá Michigan State-háskólanum, bandaríska fimleikasambandinu og Ólympíunefndinni,“ segir í skýrslunni.

„Þessar stofnanir og einstaklingar hunsuðu viðvarnir og tóku ekki eftir augljósum aðferðum Nassar til að ala stelpurnar upp í ofbeldinu. Í allra verstu tilfellunum hlustuðu þessar stofnanir og ákveðnir einstaklingar ekki á stúlkurnar þegar að þær báðu um hjálp, varnarlausar gagnvart kynferðislegu ofbeldi Larry Nassar,“ segir enn fremur í skýrslunni.

Fram kemur í skýrslunni að Scott Blackmun, fyrrverandi yfirmaður bandarísku Ólympíunefndarinnar, og Alan Ashley, afreksstjóri nefndarinnar, hafi verið látnir vita af ásökunum í garð Nassar árið 2015 en þeir létu enga aðra vita.

Bandaríska Ólympíunefndin hefur sett af stað mikið ferli hjá sér til að koma í veg fyrir að slíkir hlutir gerist afturr, en Blackmun hætti vegna heilsufarsástæðna í febrúar á þessu ári en Ashley var rekinn um leið og skýrslan var birt.


Tengdar fréttir

Fyrrum forseti fimleikasambandsins handtekinn

Vandræðaganginum í kringum bandaríska fimleikasambandið er ekki lokið og nú síðast var fyrrum forseti sambandsins handtekinn fyrir að leyna sönnunargögnum í málinu gegn Larry Nassar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.