Erlent

Snjallsímaforrit kann að hafa áhrif á drauma

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Draumsýnir geta verið stórundarlegar.
Draumsýnir geta verið stórundarlegar. Vísir/Getty
Snjallsímaforrit sem spilar lágvær hljóð meðan fólk sefur getur gert drauma ánægjulegri. The Guardian segir frá.

Eftir rannsókn sem fylgdist með draumsýnum 800 manns hefur sálfræðingurinn Richard Wiseman komist að þeirri niðurstöðu að hlusti fólk á hljóð úr náttúrunni meðan það sefur verða draumar þeirra líklegri til að vera náttúrutengdir, og eins með drauma fólks sem heyrði stórborgarhljóð í svefni.

Þátttakendur könnunarinnar niðurhöluðu forritinu Dream:ON og tveimur tegundum hljóða. Annars vegar hljóðum úr náttúrunni eins og fuglatíst eða skrjáf í laufum, og hins vegar stórborgarhljóðum eins og umferðarnið, ys og þys mannmergðar og bílflautuhljóð.

Áður en þátttakendur lögðust til hvílu völdu þeir hvort þeir vildu heyra borgarsuð eða náttúruhljóð. Rétt áður en vekjaraklukka hljóðaði morguninn eftir spilaði forritið hljóðin lágt án þess að vekja þátttakandann. Þegar fólk vaknaði skrifaði það niður drauma sína eins nákvæmlega og það gat.

Fólk sem valdi náttúruhljóðin upplifði fleiri náttúrutengda drauma, og sama lögmál gilti um fólk sem valdi stórborgarhljóð. Wiseman segir það þó kannski ekki hafa nokkuð með hljóðin að gera, því þátttakendur völdu sér hljóðategund áður en það fór að sofa og vissi því við hverju var að búast.

Mögulega verður hægt að nýta tæknina í framtíðinni þegar hún hefur verið þróuð nánar til að hjálpa fólki að vakna í betra skapi, segir Wiseman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×