Enski boltinn

Fyrsta tap Liverpool kosið besta augnablik tímabilsins hjá BBC

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ismaila Sarr og félagar hans hjá Watford fagna einu af mörkum sínum á móti Liverpool en Virgil van Dijk er mjög ósáttur.
Ismaila Sarr og félagar hans hjá Watford fagna einu af mörkum sínum á móti Liverpool en Virgil van Dijk er mjög ósáttur. Getty/Richard Heathcote

Breska ríkisútvarpið stóð fyrir kosningu á BBC Sport vefnum og þar fengu lesendur vefsins tækifæri til að velja á milli eftirminnilegra augnablika á tímabilinu sem stoppaði snarlega vegna kórónuveirunnar í byrjun mars.

Skellur langbesta liðs tímabilsins á móti einu af neðstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar þótti vera besta móment tímabilsins að mati lesenda breska ríkisútvarpsins. Það lítur út fyrir að Gary Neville og stuðningsmenn Arsenal, Manchester United og Everton hafi verið duglegir að taka þátt í þessari kosningu.

Liverpool var fyrir löngu búið að „tryggja“ sér enska meistaratitilinn þegar kom að leiknum á móti Watford en knattspyrnuáhugamenn voru spenntari fyrir því hvort liðinu tækist að fara taplaust í gegnum tímabilið eins og Arsenal liðið 2003-04.

Sú von Liverpool mann dó hins vegar á Vicarage Road þegar liðið heimsótti Watford í febrúar. Watford vann leikinn 3-0 og Liverpool tapaði ekki bara fyrsta deildarleik tímabilsins heldur fékk skell.

Gary Neville stríddi Liverpool-mönnum með því að opna kampavínsflösku á Twitter eftir leikinn en þetta var fyrsta deildartap Liverpool í 422 daga og endaði átján leikja sigurgöngu liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Í öðru sæti var 3-1 sigur Liverpool á Manchester City á Anfield en með þeim sigri skildu eiginlega leiðir hjá Liverpool og City.

Í þriðja sætinu endaði síðan 9-0 sigur Leicester City á Southampton í september sem var jöfnum á meti yfir stærsta sigurinn í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×