Enski boltinn

Howard Webb rifjar upp stærstu mistökin: „Vonaði að Ronaldo myndi klúðra vítinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Tottenham mótmæla vítaspyrnudómi Howards Webb í leik gegn Manchester United fyrir ellefu árum.
Leikmenn Tottenham mótmæla vítaspyrnudómi Howards Webb í leik gegn Manchester United fyrir ellefu árum. vísir/getty

Howard Webb, fyrrverandi fótboltadómari, segir að stærstu mistökin sem hann gerði á ferlinum hafi verið þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Tottenham í leik gegn Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni vorið 2009.

Í upphafi seinni hálfleiks dæmdi Webb vítaspyrnu á Heurelho Gomes, markvörð Tottenham, fyrir brot á Michael Carrick, leikmanni United. Spurs var þá 0-2 yfir.

„Ég sá að Carrick var á undan í boltann og markvörðurinn fór síðan í hann. Þetta var auðveldur dómur. Ég bjóst við hefðbundnum mótmælum frá leikmönnum en ekki undrunarsvipnum sem kom á andlit Gomes,“ sagði Webb.

„Það var strax ljóst að mér urðu á mistök. Ég hafði engar vísbendingar en fann það bara á mér. Ég vonaði bara að Cristiano Ronaldo myndi klúðra vítinu.“

Webb varð ekki að ósk sinni. Ronaldo skoraði úr vítinu og minnkaði muninn í 1-2. United bætti fjórum mörkum við eftir þetta og vann 5-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×