Erlent

Gasleki á Indlandi dregið tíu til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mynd af verksmiðjunni þangað sem lekinn er rakinn.
Mynd af verksmiðjunni þangað sem lekinn er rakinn.

Tíu hið minnsta hafa látist og hundruð veikst alvarlega eftir að gasleki kom upp í suðurhluta Indlands í gærkvöldi. Leikinn kom upp í verksmiðju í borginni Visakhapatman í Andrah Pradesh héraði.

Óljóst er hvað orsakaði lekann en yfirvöld rannsaka nú hvort handvömm af einhverju tagi hafi átt sök á honum. Lekinn kom upp þegar verið var að gangsetja verksmiðjuna að nýju en henni var lokað þann 24. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins þegar útgöngubann var sett á í öllu landinu.

Þarlendir miðlar segja að búið sé að koma böndum á gaslekann, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir. Óttast er að gasið hafi borist rúmlega þrjá kílómetra frá upptökum lekans.

Ekkert er enn vitað um afdrif starfsfólksins í verksmiðjunni og þeir sem staðfest hefur verið að látið hafi lífið voru almennir borgarar í nágrenninu. Atvikið þykir minna óþægilega á slysið í indversku borginni Bhopal árið 1984 þegar þúsundir manna létu lífið og enn fleiri örkumluðust fyrir lífstíð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×