Innlent

Íslendingar gerðu tilkall til Grænlands fyrir sjálfstæði

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun
Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun Fréttablaðið/Ernir
Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun, segir að krafa Íslands hafi tengst sjálfstæðisbaráttunni. „Með endurreisn landsins litu menn til fornaldar og að Íslandi bæri að taka yfir Grænland,“ segir hann. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, segir að rökin hafi verið sú að á miðöldum hafi verið byggð norrænna manna á Grænlandi. En sú byggð var löngu horfin þegar krafan kom upp. „Þetta var hliðstætt þeirri umræðu sem nú hefur verið í gangi um að Bandaríkjamenn vilji kaupa landið af Dönum. Þetta er gamaldags nýlenduhugsunarháttur,“ segir hann.

Í kringum aldamótin 1900 skrifaði Einar Benediktsson skáld fjölda blaðagreina um tilkall Íslendinga til Grænlands. Árið 1924 stóðu stúdentar fyrir borgarafundi þar sem Einar talaði ásamt Benedikt Sveinssyni, fyrrverandi þingforseta, og fleirum. Skorað var á ríkisstjórnina að halda kröfunni um „hina fornu nýlendu Íslendinga“ á lofti. Var „Grænlandsmálið“ tekið fyrir á Alþingi ári síðar.

Á þessum árum deildu Danir og Norðmenn um Austur-Grænland og fór deilan fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag árið 1931. Íslensk stjórnvöld fylgdust með og héldu sinni eigin kröfu fram. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti þingsályktunartillögu um að gæta hagsmuna Íslands. Íslendingar hefðu rétt og hagsmuni af landnytjum á Grænlandi. Var tillagan samþykkt einróma af utanríkismálanefnd þar sem meðal annars sátu Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Thors.

Hagfræðingurinn Jón Dúason skrifaði fræðirit um tilkallið til Grænlands með fjárstuðningi frá Alþingi og var það þýtt á ensku. Ekki fór mikið fyrir stuðningi við tilkallið erlendis.

Sumarliði segir að margir hafi haldið kröfunni til streitu fram yfir 1960. Þá hafi fiskveiðihagsmunir ráðið ferðinni. Jafnframt segir hann að sumir hafi verið helteknir af þessu í áratugi, til dæmis Pétur Ottesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Krafan hafi hins vegar ávallt verið byggð á órum. „Íslendingar höfðu varla burði til að stjórna sjálfum sér á þessum tíma. Erlendis hefur ábyggilega flestum fundist þetta broslegt,“ segir Sumarliði.

Guðmundur segir að Íslendingar hafi ekki mikið hugsað út í Grænlendinga sjálfa. „Að eiga nýlendu snerist fyrst og fremst um að hafa tekjur af henni en ekki leggja út í mikinn kostnað. Almennt viðhorf Íslendinga til Grænlendinga á þessum tíma var að þeir væru einhverjir skrælingjar, á lægra menningarstigi og óæðra fólk. Íslendingum var líka mjög mikið í mun að greina sig frá þeim,“ segir hann. Sumarliði segir að þetta viðhorf Íslendinga hafi breyst þegar ’68 kynslóðin kom fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.