Erlent

Toppurinn sprakk af geimfari SpaceX

Samúel Karl Ólason skrifar
EPA/ADAM S DAVIS
Geimfar fyrirtækisins SpaceX skemmdist við prófanir í Texas í gær. Um er að ræða frumgerð geimskipsins Starship og var verið að þrýstiprófa geimfarið með því að líkja eftir þeim mikla kulda sem geimferðir fela í sér. Við það sprakk toppurinn af geimflauginni.

Niðurstaðan virðist þó ekki hafa komið starfsmönnum SpaceX á óvart en talsmaður fyrirtækisins sagði tilgang tilraunarinnar vera að kanna hve mikinn þrýsting geimfarið þyldi. Hann sagði engan hafa sakað og að atvikið myndi ekki koma verulega niður á áætlunum SpaceX.



Greiningaraðilum þykir síðasta staðhæfingin þó hæpin þar sem áætlanir SpaceX þóttu undarlegar fyrir.

Hér má sjá atvikið í gær.

Starship er geimfar sem starfsmenn SpaceX eru að þróa og er því ætlað að flytja byrgðir og menn langt út í sólkerfið, til tunglsins og jafnvel til Mars. Elon Musk, kynnti frumgerðina í september og sagði að mögulega yrði hægt að skjóta henni út í geim á næstu mánuðum. Einhverjar útgáfur af geimfarinu gætu verið komnar á sporbraut um jörðu eftir hálft ár.

Hér má sjá frétt frá september 2017 um ætlanir SpaceX að senda menn til Mars árið 2024.



Starfsmenn SpaceX eru þó þegar byrjaðir á smíði annarrar útgáfu geimfarsins sem nefnist Starship Mk2. Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX, sagði á Twitter í gær að vel kæmi til greina að sleppa alfarið að skjóta frumgerðinni og annarri kynslóð Starship á loft og notast þess í stað bara við þriðju kynslóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×