Þá herma heimildir fréttastofu að maðurinn hafi komist út af hótelinu og hlaupið yfir á skemmtistaðinn Dubliner í Naustunum áður en lögregla hafði hendur í hári hans.
Rafn Hilmar Guðmundsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í samtali við Vísi að fjölmennt lið lögreglu hefði verið að störfum í miðborginni í kvöld. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið og vísaði í tilkynningu sem lögregla hyggst senda frá sér vegna málsins í kvöld.
Uppfært klukkan 21:38:
Eftirfarandi tilkynning barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins klukkan 21:33.
Upp úr kl.19:30 var lögregla kölluð til að fyrirtæki í miðborg Reykjavíkur en þar hafði karlmaður verið með ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum nú þegar. Lögregla hóf leit í fyrirtækinu enda um mjög stórt húsnæði að ræða sem krafðist mikils mannafla frá lögreglu meðan mannsins var leitað innandyra.
Maðurinn var síðan handtekinn í grennd við fyrirtækið nánar tiltekið á veitingastað ekki langt frá en hann reyndi að flýja undan lögreglu. Á manninum fundust munir sem hann hafði stolið úr viðkomandi fyrirtæki. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu og gistir nú fangageymslur þar til unnt verður að ræða við hann vegna málsins sökum vímuástands. Engin vopn fundust á manninum.
Fréttin hefur verið uppfærð með frekari upplýsingum.
