Enski boltinn

Aðeins fjögur lið í allri Evrópu hafa eytt meiri pening en Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marvelous Nakamba er einn af nýju leikmönnum Aston Villa og er greinilega mjög sáttur með það. Félagið fékk hann frá Club Brugge í Belgíu.
Marvelous Nakamba er einn af nýju leikmönnum Aston Villa og er greinilega mjög sáttur með það. Félagið fékk hann frá Club Brugge í Belgíu. Getty/Neville Williams
Nýliðar Aston Villa ætla að stimpla sig aftur inn í ensku úrvalsdeildina eftir þriggja ára fjarveru og það má sjá á eyðslu félagsins í sumarglugganum.  

Aston Villa hefur keypt nýja leikmenn fyrir 118 milljónir punda í sumar en alls eru tólf nýir leikmenn komnir til félagsins. Þetta gera 17,6 milljarða í íslenskum krónum sem er engin smáupphæð.  





Staðan er sú að Aston Villa hefur eytt meiru en öll hin liðin í ensku úrvalsdeildinni og það eru aðeins fjögur lið í allri Evrópu hafa eytt meiri pening en Aston Villa.

Liðin sem hafa eytt meira í nýja leikmenn í sumar eru spænsku liðin Real Madrid, Atletico Madrid og Barcelona sem og ítalska félagið Juventus.

Nýir eigendur eru tilbúnir að dæla peningum inn í liðið og það kemur ekki til greina að detta aftur niður í b-deildina þar sem Aston Villa liðið hefur þurft að dúsa undanfarin þrjú tímabili.

Aston Villa missti fjórtán af leikmönnum sem komu liðinu upp í fyrra og þar á meðal er markahæsti leikmaður liðsins, Tammy Abraham, sem var í láni frá Chelsea.

Aston Villa þurfti því að taka til höndum á markaðnum og leikmenn hafa streymt inn. Villa hefur sett nýtt félagsmet í eyðslu og sló metið yfir dýrasta leikmann félagsins frá upphafi.

Dýrasti leikmaður Aston Villa í sumar var brasilíski framherjinn Wesley sem Villa keypti fyrir 22 milljónir punda frá Club Brugge í júní. Aston Villa borgaði 20 milljónir punda fyrir miðvörðinn Tyrone Mings frá Bournemouth og 15 milljónir punda fyrir miðjumanninn Douglas Luiz frá Manchester City.

Fimm aðrir leikmenn kostuðu Aston Villa meira en átta milljónir punda en það eru Ezri Konsa, miðvörður frá Southampton, Matt Targett, bakvörður frá Southampton, Björn Engels miðvörður frá Stade de Reims, Trézéguet, vængmaður frá Kasimpaa og loks Tom Heaton, markvörður frá Burnley.

Breska ríkisútvarpið fór yfir eyðslu Aston Villa og hvaða leikmenn félagið var að kaupa í sumar. Það má sjá þessa samantekt hér.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×