Oliver Giroud, leikmaður Chelsea, lék í framlínu franska liðsins í kvöld og háði harða baráttu við Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson í vörn íslenska liðsins. Hann sagði íslenska liðið hafa gert Frökkum erfitt fyrir í leiknum.
„Í fyrri hálfleik lentum við í vandræðum með að spila á milli línanna hjá þeim. Í seinni hálfleik lékum við beinskeyttari sóknarleik með löngum boltum og reyndum að skalla boltann áfram,“ sagði Giorud í samtali við blaðamann Vísis að leik loknum.
Hann sagði erfitt að spila gegn íslenska liðinu og þá sérstaklega á heimavelli þar sem Ísland hefur oft náð í góð úrslit undanfarin ár.
„Við vissum að þetta yrði erfitt að spila gegn þeim því þeir eru mjög þéttir og verjast mjög vel. Liðið tapaði ekki í sex ár hér á heimavelli og það er mjög vel gert.“
Þegar leið á leikinn opnaðist íslenska vörnin aðeins oftar þegar liðið fór að sækja framar á völlinn.
„Við hefðum getað skorað fleiri mörk í lokin,“ sagði Frakkinn geðþekki að lokum.
