Fótbolti

Gylfi: Hefði verið fínt að fá skoskan dómara

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Gylfi Sigurðsson í leiknum í kvöld. vísir/vilhelm
Það var þreyttur en stoltur fyrirliði Íslands, Gylfi Sigurðsson, sem ræddi við fjölmiðla eftir 1-0 tap íslenska liðsins gegn Frökkum á heimavelli í kvöld.

„Við erum alveg búnir á því. Þetta voru mikil hlaup án bolta og það er gríðarlega svekkjandi að fá á sig mark úr víti þar sem þeir sköpuðu sér ekkert sérstaklega mikið en við vorum að spila gegn heimsmeisturunum,“ sagði Gylfi eftir leikinn.

Hvað fannst Gylfa um vítaspyrnuna sem Frakkarnir fengu?

„Mér fannst þetta ekki vera víti en þeir voru að tékka á honum og hann var alveg að drepast svo maður þarf að kíkja á þetta aftur,“ sagði Gylfi um Griezmann.

Jóhann Berg Guðmundsson fór af velli í fyrri hálfleik og riðlaði það leikplani Íslands til muna.

„Planið gekk upp í fyrri hálfleik; að verjast vel og nýta skyndisóknirnar en við hefðum getað spilað betur úr þeim. Jói fer snemma útaf og við erum með framherja á kantinum.

„Mér fannst Jón Daði standa sig vel í því hlutverki en sóknarlega þá þurfum við aðeins að bæta okkur.“

Frakkarnir voru duglegir að henda sér niður í leiknum og Gylfi hafði þetta að segja um ítalska dómarann.

„Það hefði verið fínt að fá skoskan dómara en ég held að hann hafi borið dálítið mikla virðingu fyrir þeim. Kannski hef ég vitlaust fyrir mér en mér fannst það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×