Innlent

Bjuggu til dómsal í sýndarveruleika fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Nemar í tölvunarfræði hafa skapað dómsal í sýndarveruleika til þess að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis fyrir réttarhöldin. Þeir segja að sérfræðingar hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga. Það að komast í réttarsalinn í huganum geti dregið úr streitu og kvíða fyrir svo yfirþyrmandi aðstæðum.

Hafdís Sæland, Edit Ómarsdóttir og Helga Margrét Ólafsdóttir, tölvunarfræðinemar, bjuggu til dómsalinn í sýndarveruleika sem ætlaður er þolendum kynferðisofbeldis. Um ræðir lokaverkefni sem unnið var í gervigreindarsetrinu í Háskólanum í Reykjavík.

„Það fylgir því að fara fyrir dóm mikill kvíði og mikill stress sem hefur mikil áhrif á líf þeirra og það gæti dregið úr þessum kvíða og stressi með því að vera búin að fara í aðstæðurnar og sjá þær,“ segir Edit.

Þetta sé þannig hugsað til að undirbúa þolendur fyrir að bera vitni í máli sínu. Þær fengu leiðsögn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fengu aðgang að réttarsalnum í Héraðsdómi Reykjavíkur til að búa til nákvæma eftirlíkingu.

Þær vonast til að hægt verði að þróa hugmyndina enn frekar. „Og hægt verði að koma þessu í umferð til að hjálpa þolendum því það er gríðarlega mikilvægt að þeim líði vel. Það væri frábært ef það væri hægt að nýta þetta tól til að hjálpa þolendum kynferðisofbeldis,“ segir Hafdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×