Lögreglan handtók grunaðan vændiskaupanda í miðborginni í nótt. Að sögn lögreglunnar hafði henni borist tilkynning á þriðja tímanum vegna „óvelkomins manns,“ án þess þó að útskýra hvar hann var óvelkominn eða hver tilkynnti um ferðir hans.
Lögreglan skarst í leikinn og handtók manninn á vettvangi vegna gruns um að hann hafi keypt vændi. Maðurinn á auk þess að hafa hunsað fyrirmæli lögreglunnar og verið með fíkniefni í fórum sínum. Hann var fluttur á lögreglustöð þar sem hann hefur mátt verja nóttinni og ætla má að hann verði yfirheyrður í dag.
Að öðru leyti voru það einna helst umferðarlagabrot sem rötuðu inn á borð lögreglunnar í nótt. Flestir ökumannanna sem komust í kast við lögin eru grunaðir um að hafa verið vímaðir undir stýri.
Þá brutust út slagsmál í Hlíðahverfi Reykjavíkur skömmu fyrri klukkan 23 í gærkvöld. Einn maður var handtekinn vegna hótana og fluttur á lögreglustöð þar sem af honum var tekin skýrsla. Að skýrslutöku lokinni fékk hann þó að halda til síns heima.
