Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool, segir að Jordan Henderson, núverandi fyrirliði liðsins, sé einn mesti atvinnumaður sem hann hefur kynnst.
Henderson lyfti sínum fyrsta bikar á laugardagskvöldið sem fyrirliði Liverpool er þeir rauðklæddu unnu 2-0 sigur á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
„Þegar Jordan lyfti bikarnum upp fyrir höfuðið þá varð ég stoltur. Stoltur af Liverpool sem er komið til baka í Evrópuboltanum og sérstaklega stoltur af Jordan því ég veit hversu mikið hann leggur á sig,“ sagði Gerrard.
Henderson hefur ekki verið vinsælasti leikmaðurinn í liði Liverpool undanfarin tímabil en hann hefur ávallt verið mikið á milli tannanna á fólki. Gerrard segir að það sjáist ekki allt sem hann leggur á sig.
„Ég veit allt sem hann hefur lagt á sig og alla pressuna sem hann hefur verið undir. Ef ég þyrfti að nefna einhvern sem væri fullkominn atvinnumaður þá væri Jordan við toppinn á listanum.“
„Sumt fólk sér ekki hvað gerist á bakvið tjöldin; vinnuna í ræktinni, hvernig hann borðar en hann er leikmaður sem er ótrúleg fyrirmynd. Hann setur sjálfan sig aftast í röðina.“
Gerrard hrósaði Henderson í hástert: „Fullkominn atvinnumaður“
Anton Ingi Leifsson skrifar
