Erlent

Enn flæðir vatn um allt í Feneyjum

Jón Þórisson skrifar
Vaða þarf vatnselg í Feneyjum í flóðum sem þar eru.
Vaða þarf vatnselg í Feneyjum í flóðum sem þar eru. Nordicphotos/Getty
Í þriðja sinn á einni viku flæðir í Feneyjum. Slíkur er elgurinn að búist var við því í gær að vatnsborð myndi hækka um meira en einn og hálfan metra og færa yfirborð hins kunna Markúsartorgs í kaf. Borgarstjóri Feneyja, Luigi Brugnaro, fyrirskipaði á föstudag að toginu skyldi lokað fyrir allri umferð, en þar er annars aðeins leyfð umferð gangandi og hjólandi fólks. Torgið var hins vegar opnað á ný á laugardag, en í gær stefndi í að því yrði lokað aftur tímabundið, þar til flóðið sjatnar. Það eykur enn á skemmdir af völdum flóðanna að um er að ræða saltan sjó sem flæðir upp úr síkjum borgarinnar.

Flóðin eru sögð vera þau mestu í borginni frá því skipulegar mælingar hófust árið 1872. Flóðin eru ekki aðeins bundin við Feneyjar því viðvaranir voru gefnar út í ítölsku borgunum Flórens og Písa. Þeim borgum er þó ekki eins hætt við flóðum og Feneyjum.

Hundruð sjálfboðaliða hafa verið við störf í Feneyjum vegna flóðanna við að aðstoða íbúa borgarinnar. Þar eru mörg af kunnustu menningarverðmætum heims og er borgin á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Áætlað er að tjón af völdum flóðanna undanfarið nemi meira en einum milljarði Bandaríkjadala eða sem samsvarar yfir hundrað og tuttugu milljörðum íslenskra króna.

Breska fréttablaðið Guardian greindi frá því á föstudag að héraðsstjórnin í Feneyjum hefði fellt tillögu um að sporna við loftslagsbreytingum aðeins örfáum andartökum áður en flæddi inn á skrifstofur hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×