Erlendir ferðamenn eru ánægðir með dvöl sína á Íslandi en þetta er meðal þess sem kom fram þegar ferðamálaráðherra kynnti framtíðarsýn ferðaþjónustunnar í dag.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kynnti framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 sem unnið er af atvinnugreininni sjálfri og yfirvöldum.
„Þar sem við erum búin að koma okkur saman um hvert við viljum stefna, það eru tímamót að við séum öll sammála um það,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þá kynnti ráðherra Jafnvægisás ferðamála sem er þolmarkagreining á ferðaþjónustunni. Er það í fyrsta sinn í heiminum sem slíkt verkefni er unnið á landsvísu.

Stefnt er að sjálfbærri ferðaþjónustu þar sem jafnvægi er á milli efnahags, umhverfis og samfélags. Þá er meiri áhersla lögð á arðsemi greinarinnar.
„Við ætlum að byggja íslenska ferðaþjónustu þannig upp að landið allt njóti góðs af, við séum með ferðamenn út um allt land, allt árið um kring.“
Jafnvægisásinn metur áhrif ferðaþjónustunnar á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Einnig er lagt mat á hvort grípa þurfi til aðgerða varðandi svæðisstýringu eða vegaframkvæmdir.
„Við ætlum að ná samfélagslegri sátt um ferðaþjónustuna og að Íslendingar séu tilbúnir að taka á móti gestum og svo framvegis. Við erum í rauninni að búa til nokkurskonar fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir ferðaþjónustuna.“
Greiningin leiðir í ljós að ferðaþjónustan er með mjög hátt meðmælaskor frá ferðamönnum Þórdís segir að stórfyrirtæki geti mörg hver ekki látið sig dreyma um svo hátt skor. Er markmiðið að halda því.
„Það er mjög krefjandi en við höfum öll tækifæri til að gera það. Erlendu ferðamennirnir sem koma til landsins eru langflestir alveg ótrúlega ánægðir með veru sína hér.“