Erlent

Kveiktu óvart í sjúklingi á skurðarborðinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan hóf rannsókn á dauða konunnar sem var 66 ára gömul. Hún hlaut brunasár á 40% líkamans þegar hún gekkst undir aðgerðina vegna krabbameins í brisi 22. desember.
Lögreglan hóf rannsókn á dauða konunnar sem var 66 ára gömul. Hún hlaut brunasár á 40% líkamans þegar hún gekkst undir aðgerðina vegna krabbameins í brisi 22. desember. Vísir/getty

Kona á sjötugsaldri lést eftir eldur kviknaði í henni á skurðarborðinu á sjúkrahúsi í Búkarest í Rúmeníu fyrir jól. Eldurinn kviknaði út frá rafmagnsskurðhníf þegar hann komst í snertingu við sótthreinsiefni úr vínanda.

Lögreglan hóf rannsókn á dauða konunnar sem var 66 ára gömul. Hún hlaut brunasár á 40% líkamans þegar hún gekkst undir aðgerðina vegna krabbameins í brisi 22. desember. Hún lést af sárum sínum viku síðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Fjölskylda konunnar segir að henni hafi ekki verið sagt hvernig dauða konunnar bar að, aðeins að slys hefði átt sér stað. Frétti fjölskyldan ekki af því hvað hefði nákvæmlega gerst fyrr en fjölmiðlar greindu frá því.

Victor Costache, heilbrigðisráðherra Rúmeníu, hefur lofað að rannsaka uppákomuna. Útgjöld til heilbrigðismála í Rúmeníu eru þau lægstu innan Evrópusambandsins, tíðni barnadauða er sú hæsta í álfunni og engin ný sjúkrahús hafa verið byggð í þrjátíu ár þar.        




Fleiri fréttir

Sjá meira


×