Erlent

Frum­kvöðull í fyrir­sætu­heiminum lést eftir skyndi­leg veikindi

Sylvía Hall skrifar
Mama Cax.
Mama Cax. Vísir/Getty

Hin þrítuga fyrirsæta Mama Cax lést á mánudag eftir skammvinn veikindi. Cax, sem hét fullu nafni Cacsmy Brutus, var frumkvöðull í heimi fyrirsæta og barðist fyrir aukinni fjölbreytni í tískuiðnaðinum.

Fjölskylda Cax greindi frá andláti hennar á Instagram í gær þar sem þau minntust hennar sem baráttukonu. Hún hafi tekist á við margar áskoranir í lífinu og unnið marga sigra og þannig hafi hún tekist á við síðustu daga sína.

Cax missti fótlegg sem táningur eftir baráttu við lungna- og beinkrabba. Hún notaðist við gervifót og ruddi þannig brautina fyrir fatlaðar fyrirsætur. Þá barðist hún einnig fyrir auknum sýnileika minnihlutahópa í iðnaðinum.

Cax vakti athygli fyrir baráttu sína fyrir breyttum viðhorfum í fyrirsætubransanum.Vísir/Getty

Í viðtali við tímaritið Dazed and Confused fyrr á árinu sagðist hún hafa lært að elska gervifótinn eftir að hún byrjaði að skreyta hann. Í kjölfarið hafi hún farið að líta á hann sem listaverk í stað þess að hugsa um hann sem eitthvað sem hún ætti að skammast sín fyrir.

„Við gerum okkur grein fyrir því að fólk um allan heim mun finna fyrir þessum missi og hann mun ekki vera auðveldur fyrir neinn. Við biðjum ykkur um að virða einkalíf Cax á þessum erfiðu tímum,“ skrifar fjölskyldan á Instagram.

Á meðal þeirra sem hafa minnst Cax á samfélagsmiðlum er tónlistarkonan Rihanna en Cax tók þátt í tískusýningu fyrir undirfatalínu Rihönnu, Fenty, fyrir nokkrum mánuðum. Hún segir Cax hafa verið náttúruafl sem veitti mörgum innblástur. 



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×