Erlent

Skorað á Netanyahu í for­manns­kosningum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. getty/Lior Mizrahi

Formannskosningar standa nú yfir hjá Likud flokknum í Ísrael en Gideon Saar er í framboði á móti Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra og formanni flokksins. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Netanyahu hefur setið sem forsætisráðherra Ísrael frá árinu 2009. Netanyahu stendur þó höllum fæti innan Likud flokksins en honum hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn í kosningunum tveimur sem haldnar hafa verið á þessu ári.

Kosið var til þings bæði í apríl og í september og boðað hefur verið til þriðju þingkosninganna sem gert er ráð fyrir að fari fram í mars næstkomandi. Netanyahu fékk umboð til stjórnarmyndunar eftir báðar kosningarnar sem fóru fram í ár en honum tókst ekki að mynda ríkisstjórn.

Sjá einnig: Verða þriðju kosningarnar á innan við ári

Auk þess að hafa mistekist að mynda ríkisstjórn á hann yfir höfði sér ákærur fyrir spillingu, mútur, mútuþægni og svik.

Samkvæmt fréttaritara BBC í Jerúsalem hefur Netanyahu haldið úti öflugri kosningabaráttu, þrátt fyrir að búist sé við að hann vinni kosningarnar, vegna þess að hann vilji vinna stórsigur. Annars muni það líta út fyrir að hann sé að missa tökin á flokknum.

Netanyahu nýtur enn mikils stuðnings innan Likud flokksins en Saar er talinn sterkasti andstæðingur hans sem fram hefur komið í þann áratug sem Netanyahu hefur gengt formannsstöðu.


Tengdar fréttir

Fól þinginu að mynda nýja stjórn

Benny Gantz, leiðtoga Bláa og hvíta bandalagsins, tókst ekki að mynda nýja ríkisstjórn í Ísrael frekar en Benjamin Netanyahu, leiðtoga Likudflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×