Enski boltinn

Mourinho: Ndombele vildi ekki spila

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ndombele kom við sögu í tapinu gegn Chelsea á dögunum.
Ndombele kom við sögu í tapinu gegn Chelsea á dögunum. vísir/getty

Franski miðjumaðurinn Tanguy Ndombele var ekki í leikmannahópi Tottenham þegar liðið mætti Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þessi dýrasti leikmaður í sögu félagsins hefur aðeins byrjað einn leik síðan Jose Mourinho tók við stjórnartaumunum þegar hann spilaði 74 mínútur í 3-2 sigri á Bournemouth en það var fyrsti leikur Tottenham undir stjórn Mourinho.

Mourinho var spurður út í fjarveru Ndombele eftir 2-1 sigurinn á Brighton í gær.

„Ég get ekki sagt að hann hafi verið meiddur. Ég get sagt ykkur að í gær (í fyrradag) sagði hann mér að hann væri ekki í ástandi til að spila leikinn. Ekki útaf því að hann væri meiddur heldur vegna þeirra meiðsla sem hann var að glíma við áður,“ sagði Mourinho.

Tottenham heimsækir Norwich í ensku úrvalsdeildinni á morgun og verður áhugavert að sjá hvort Ndombele snúi aftur í leikmannahópinn þá.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×