Endurkomusigur Úlfanna gegn City

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úlfarnir unnu sterkan sigur
Úlfarnir unnu sterkan sigur vísir/getty

Möguleikar Manchester City á að ná Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar minnkuðu í kvöld þegar City tapaði fyrir Úlfunum á útivelli.

Leikurinn á Molineux vellinum var mikil skemmtun og dró til tíðinda strax á elleftu mínútu leiksins þegar markmaður City, Ederson, var rekinn af velli fyrir brot á Diogo Jota fyrir utan vítateig.

Endursýningar sýndu að dómurinn var kannski nokkuð harður, en hann stóð og Englandsmeistararnir voru því manni færri nær allan leikinn.

Á 22. mínútu leiksins náði Riyad Mahrez í vítaspyrnu fyrir City eftir myndbandsdómgæslu. Raheem Sterling tók spyrnuna en Rui Patricio varði frá honum.

Myndbandsdómgæslan dæmdi hins vegar að taka ætti spyrnuna aftur svo Sterling fékk aðra tilraun. Aftur varði Patricio frá Sterling en Sterling náði frákastinu og skoraði.

Staðan var 1-0 fyrir City í hálfleik og snemma í seinni hálfleik kom Sterling City í 2-0. Aðeins fjórum mínútum síðar minnkaði Adama Traore metin fyrir Úlfana með glæsilegu marki.

City virtist ætla að ná að sigla heim sigrinum en á 82. mínútu jafnaði Raul Jimenez metin eftir mistök Benjamin Mendy í vörninni.

Á lokamínútu leiksins skoraði Matt Doherty svo sigurmarkið fyrir Úlfana, lokatölur urðu 3-2.

Úlfarnir eru nú komnir upp í fimmta sæti deildarinnar en City er enn í þriðja sætinu, 14 stigum á eftir Liverpool á toppnum sem eiga leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira