Erlent

Fjölda­morð aldrei verið skráð fleiri í Banda­ríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Mannskæðasta árásin þetta árið var framin í El Paso í Texas í ágúst.
Mannskæðasta árásin þetta árið var framin í El Paso í Texas í ágúst. Getty

Aldrei hafa verið skráð fleiri fjöldamorð í Bandaríkjunum en á árinu 2019 sem senn er á enda. Alls voru skráð 41 atvik sem flokkast sem fjöldamorð þar sem alls 211 týndu lífi.

Þetta kemur fram í samantekt AP, USA Today og Northeastern-háskólanum í Bandaríkunum. Fjöldamorð (e. mass killings) eru skilgreind á þá veru að fjórir eða fleiri láta lífið í sömu árásinni, að árásarmanni frátöldum.

Mannskæðustu árásirnar á árinu 2019 voru í Virginia Beach í maí þar sem tólf manns létu lífið og svo í El Paso í Texas í ágúst þar sem 22 dóu. Flestar árásir voru framdar í Kaliforníu-ríki, eða átta talsins. Af árásunum 41 komu skotvopn við sögu í 33 þeirra.

AP segir frá því að skráning fjöldamorða hafi staðið yfir frá 2006, en að rannsóknir aftur til áttunda áratugarins bendi til að ekki hafi verið framin fleiri fjöldamorð á einu ári en á árinu 2019. Árið 2006 mældust næstflest atvik, eða 38.

Þrátt fyrir að flest fjöldamorð hafi verið skráð á árinu 2019, þar sem 211 létu lífið, fórust 224 í fjöldamorðum í Bandaríkjunum árið 2017. Það ár var líka framin mannskæðasta skotárásin í sögu Bandaríkjanna, þegar 59 týndu lífi á tónlistarhátíð í Las Vegas.

Í frétt BBC segir að mörg morðin hafi ekki ratað í fjölmiðla þar sem um hafi verið að ræða fjölskyldudeilur, morð tengd fíkniefnaviðskiptum eða gengjastríðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×