Erlent

Mann­tjón eftir eld­gos á vin­sælli ferða­manna­eyju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gosmökkurinn frá fjallinnu sést hér rísa hátt upp í himininn.
Gosmökkurinn frá fjallinnu sést hér rísa hátt upp í himininn. Vísir/EPA
Einn er látinn og nokkurra er saknað eftir eldgos í Whakaari, eða „Hvítu eyju“, á Nýja-Sjálandi. Ferðamenn sáust ganga við gíg fjallsins rétt áður en gosið hófst. BBC greinir frá. Haft er eftir lögreglu í frétt BBC að tuttugu og þremur hafi verið bjargað en óttast er að tala látinna hækki.

Fjallið, sem er á eyju rétt norðan við stóru eyjar Nýja-Sjálands, er eitt af virkustu eldfjöllum landsins. Hvíta eyja er jafnframt vinsæll ferðamannastaður og þangað fara ferðamenn gjarnan í dagsferðir. Talið er að tæplega fimmtíu manns hafi verið á eyjunni þegar gosið hófst um klukkan tvö að staðartíma, eða um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.

Erlendir miðlar hafa deilt myndböndum frá Michael Schade, Twitter-notanda sem var á siglingu við Hvítu eyju þegar eldgosið varð. Í myndböndum hans, sem sjá má hér að neðan, sést hvernig gríðarlegur gosmökkur rís upp úr hafinu.

Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands sagði í ávarpi að nokkrir ferðamenn hefðu verið á eyjunni eða í grennd við hana þegar byrjaði að gjósa. Um væri að ræða bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Þá sagði hún lögreglu standa að umfangsmiklum björgunaraðgerðum en gosmökkurinn gerði björgunarfólki þó erfitt fyrir.

Í frétt BBC segir að gos í fjallinu séu nokkuð tíð. Síðast gaus þar árið 2016 en engan sakaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×