Fótbolti

Napoli tapaði fyrsta leiknum undir stjórn Gattuso

Arnar Geir Halldórsson skrifar

Napoli fékk Parma í heimsókn í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld en Napoli skipti um stjóra í vikunni þegar Carlo Ancelotti var rekinn frá félaginu og Gennaro Gattuso ráðinn í hans stað.

Það blés ekki byrlega fyrir Gattuso því Parma komst yfir strax á 4.mínútu leiksins með marki Dejan Kulusevski og var staðan í leikhléi 0-1 fyrir gestina.

Pólski markahrókurinn Arek Milik jafnaði metin fyrir Napoli eftir rúmlega klukkutíma leik.

Napoli freistaði þess að ná sigurmarkinu og sótti á mörgum mönnum undir lokin en það hafði þveröfug áhrif því á fjórðu mínútu uppbótartíma fengu Parma skyndisókn sem endaði með dauðafæri fyrir Gervinho. Honum urðu ekki á nein mistök og tryggði hann Parma 1-2 sigur.

Parma hefur nú þremur stigum meira en Napoli en liðin eru í 7. og 8.sæti deildarinnar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×