Erlent

For­sætis­ráð­herra Finn­lands sagður reiðu­búinn að hætta

Atli Ísleifsson skrifar
Antti Rinne tók við sem forsætisráðherra Finnlands í sumar.
Antti Rinne tók við sem forsætisráðherra Finnlands í sumar. Getty
Stjórnarsamstarfið í Finnlandi er sagt vera í mikilli hættu eftir deilur síðustu vikna á finnskum vinnumarkaði og er forsætisráðherrann og leiðtogi Jafnaðarmanna Antti Rinne sagður reiðubúinn að láta af embætti.

Heimildarmenn blaðsins Iltalehti og ríkisfjölmiðilsins Yle segja að Rinne muni biðjast lausnar fyrir hádegi í dag.

Miklar deilur hafa staðið á finnskum vinnumarkaði síðustu vikurnar sem sneru að starfsmönnum finnska póstsins. Verkföll starfsmanna póstsins og samúðarverkföll annarra stéttarfélaga höfðu mikil áhrif á finnskt samfélag og ollu meðal annars röskunum í flug-, ferju- og lestarsamgöngum.

Miðflokkurinn, sem á sæti í samsteypustjórn Rinne, lýsti því yfir í gærkvöldi að þingflokkur Miðflokksins treysti ekki lengur Rinne fyrir því að leiða ríkisstjórn. Leiðtogar Miðflokksins funduðu með Rinne í morgun og sitja þingflokkarnir nú sjálfir á fundum.

Sanna Marin samgönguráðherra.Getty
Blaðið Suomen Kuvalehti greindi frá því í morgun að Rinne væri reiðubúinn að stíga til hliðar til að samgönguráðherrann og samflokksmaður Rinne, hin 33 ára Sanna Marin, tæki við sem nýr forsætisráðherra.

Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í vor og myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn þá stjórn með Græningjum, Miðflokknum, Vinstra bandalaginu og Sænska þjóðarflokknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×