Erlent

For­sætis­ráð­herra Finn­lands sagður reiðu­búinn að hætta

Atli Ísleifsson skrifar
Antti Rinne tók við sem forsætisráðherra Finnlands í sumar.
Antti Rinne tók við sem forsætisráðherra Finnlands í sumar. Getty

Stjórnarsamstarfið í Finnlandi er sagt vera í mikilli hættu eftir deilur síðustu vikna á finnskum vinnumarkaði og er forsætisráðherrann og leiðtogi Jafnaðarmanna Antti Rinne sagður reiðubúinn að láta af embætti.

Heimildarmenn blaðsins Iltalehti og ríkisfjölmiðilsins Yle segja að Rinne muni biðjast lausnar fyrir hádegi í dag.

Miklar deilur hafa staðið á finnskum vinnumarkaði síðustu vikurnar sem sneru að starfsmönnum finnska póstsins. Verkföll starfsmanna póstsins og samúðarverkföll annarra stéttarfélaga höfðu mikil áhrif á finnskt samfélag og ollu meðal annars röskunum í flug-, ferju- og lestarsamgöngum.

Miðflokkurinn, sem á sæti í samsteypustjórn Rinne, lýsti því yfir í gærkvöldi að þingflokkur Miðflokksins treysti ekki lengur Rinne fyrir því að leiða ríkisstjórn. Leiðtogar Miðflokksins funduðu með Rinne í morgun og sitja þingflokkarnir nú sjálfir á fundum.

Sanna Marin samgönguráðherra. Getty

Blaðið Suomen Kuvalehti greindi frá því í morgun að Rinne væri reiðubúinn að stíga til hliðar til að samgönguráðherrann og samflokksmaður Rinne, hin 33 ára Sanna Marin, tæki við sem nýr forsætisráðherra.

Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í vor og myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn þá stjórn með Græningjum, Miðflokknum, Vinstra bandalaginu og Sænska þjóðarflokknum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.