Innlent

Vígdís kallaði Dóru Björt „drullusokk“ og „skítadreifara“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, kallaði Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, „drullusokk meirihlutans“ og „skítadreifara“. Ummæli þessi áttu sér stað á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Í kjölfar þess fór Pawel Baroszek, forseti borgarstjórnar, fram á að borgarfulltrúar gættu orða sinna.

Eftir að Dóra Björt flutti ræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar, þar sem hún gagnrýndi minnihlutann og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkinn gagnrýndi Dóra fyrir að hafa lagt niður verkamannabústaðina. Nú væri verið að reyna að byggja kerfið upp á ný.

Þá sakaði hún borgarfulltrúa Miðflokksins um „rembing“ og „einangrunarhyggju“ vegna gagnrýni þeirra á utanlandsferðir borgarfulltrúa og starfsmanna.

Vigdís steig þá í pontu og gagnrýndi að ræða Dóru hefði ekki verið stöðvuð því slíkt væri hægt ef ræðumaður færi „úr hófi“.

„Hér hefur einn borgarfulltrúi meirihlutans tekið að sér að vera drullusokkur meirihlutans,“ sagði Vigdís og lagði hún mikla áherslu á orðið drullusokkur.

„Því það er alveg sama hvað er til umræðu hér í borgarstjórnarsalnum. Það er alltaf hraunað yfir flokkana, þá aðallega Sjálfstæðisflokkinn, nú var hægt að drulla yfir Miðflokkinn líka,“ sagði Vigdís og stöðvaði ræðu sína til að benda á að Dóra Björt hefði gengið úr salnum.

„Borgarfulltrúinn er genginn úr sal og þolir ekki að heyra sannleikann. Ég vil óska henni til hamingju með nafnbótina að vera drullusokkur meirihlutans. Takk fyrir,“ sagði Vigdís.

Dóra Björt, virtist þó ekki hafa farið langt og sneri strax aftur í pontu.

„Hún stóð hér í pontu og kallaði mig, borgarfulltrúa í þessum sal, drullusokk. Áhugavert. Vel gert Vigdís.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×