Innlent

Frost allt niður í 12 stig á Suðurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitakort Veðurstofunnar sýnir að það er frost á fróni.
Hitakort Veðurstofunnar sýnir að það er frost á fróni. veðurstofa íslands

Það verður norðlæg átt á landinu í dag, víða 8 til 15 metrar á sekúndu um landið norðanvert, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á Austurlandi verður hvöss vestanátt fram yfir hádegi og gæti vindur farið upp í 20 metra á sekúndu í strengjum við fjöll. Vindur verður heldur hægari suðvestan til á landinu.

Með norðanáttinni fylgir éljagangur um landið norðanvert og er veður kólnandi. Á Suðurlandi má búast við því að það verði léttskýjað en ansi kalt með frosti allt niður í 12 stig.

Á morgun, föstudag, er svo útlit fyrir fallegt vetrarveður víðast hvar, léttskýjað og frost. Næsta lægð er síðan væntanleg að suðurströndinni seinni partinn á laugardaginn með örlítið hlýrra lofti og snjókomu eða slyddu.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt 8-15 m/s og él, en vestan 15-20 austan til fram yfir hádegi. Lengst af hæg norðlæg átt og léttskýjað sunnan- og vestantil. Frost 0 til 12 stig, kaldast í uppsveitum sunnanlands.

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, á morgun, en norðvestan 10-15 austast. Éljagangur norðaustan- og austanlands en annars bjartviðri. Frost 1 til 9 stig, kaldast norðan til.

Á föstudag:
Norðan 3-10 m/s, en 10-15 með norðausturströndinni. Dálítil snjókoma eða él norðan- og austanlands, annars léttskýjað. Frost 2 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:
Vaxandi austlæg átt, 10-15 m/s síðdegis en hægari norðaustanlands. Að mestu skýjað og þurrt, en dálítil él með norðurströndinni og snjókoma sunnan til um kvöldið. Minnkandi frost.

Á sunnudag:
Norðaustanátt og snjókoma eða slydda með köflum, en úrkomulítið vestanlands. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag:
Suðaustanátt, rigning og hiti 1 til 6 stig, en úrkomulítið norðaustan til og frost 1 til 6 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.