Innlent

Tólf tíma verkfall á prentmiðlum hafið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Blaðamenn á Fréttablaðinu leggja niður störf í dag.
Blaðamenn á Fréttablaðinu leggja niður störf í dag. vísir/vilhelm

Núna klukkan 10 hófst tólf tíma verkfall blaðamanna á prentmiðlum, það er Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, auk þess sem ljósmyndarar og tökumenn sem eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands og starfa hjá Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Sýn og RÚV leggja líka niður störf.

Vinnustöðvuninni lýkur klukkan 22 í kvöld. Um er að ræða fyrstu vinnustöðvun á prentmiðlum en fyrri þrjár vinnustöðvanir tóku til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna.

Í þeim vinnustöðvunum skrifuðu verktakar, yfirmenn og blaðamenn Morgunblaðsins fréttir á mbl.is á meðan á verkfallsaðgerðum stóð.

Vefblaðamenn mbl.is fordæmdu þær aðgerðir og stefndi BÍ Samtökum atvinnulífsins fyrir Félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota hjá Árvakri.

Blaðamenn felldu kjarasamning við SA í síðustu viku en skrifað var undir hann í kjölfar þess að boðuðum verkfallsaðgerðum var frestað um viku.

Sú ákvörðun samninganefndar félagsins var afar umdeild enda hafði hún í för með sér að verkfall á prentmiðlum, sem átti að vera síðastliðinn fimmtudag, daginn fyrir svokallaðan Black Friday, frestaðist til dagsins í dag.

Eftir að kjarasamningurinn var felldur í atkvæðagreiðslu hafa samninganefndir BÍ og SA átt fundi hjá ríkissáttasemjara en án árangurs. Síðast var fundað á þriðjudag og hefur nýr fundur ekki verið boðaður í deilunni.

Blaðamenn á Vísi eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands.


Tengdar fréttir

Vefblaðamenn leggja niður störf frá 10 til 22

Klukkan tíu leggja fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á vefmiðlum niður störf í tólf tíma. Um er að ræða þriðju aðgerðina í boðuðum verkfallsaðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslands á fjórum fjölmiðlum. Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV og Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.